*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Innlent 19. maí 2019 14:05

Leggur til nýja viðskiptastofnun

Framkvæmdastjóri FLE leggur til að komið verði á fót nýrri stofnun sem hefur eftirlit með hinum ýmsu stéttum.

Ritstjórn
Frá skattadegi Félags löggiltra endurskoðenda fyrir nokkrum árum.
Haraldur Guðjónsson

Frumvarp til nýrra heildarlaga um endurskoðendur og endurskoðun hefur verið stopp í nefnd á þingi frá því fyrir jól þar sem ekki hefur náðst sátt um hvar eftirlit með þeim eigi heima. Útlit er fyrir að endurskoðendaráð verði gert að sjálfstæðri stjórnsýslunefnd og muni þannig sinna eftirlitinu. Framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) leggur til að komið verði á fót nýrri stofnun sem hefur eftirlit með hinum ýmsu stéttum. 

Frá því að fyrstu umræðu um málið lauk á þingi, strax í fyrstu viku nóvember, hefur það verið tekið fimm sinnum fyrir hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í apríl var lagt fyrir nefndina minnisblað frá atvinnuvegaráðuneytinu (ANR) þar sem vikið var að helstu athugasemdum við frumvarpið og hvort tilefni væri til að mæta þeim. Í ljósi aðstæðna var talið álitlegast að  breyta endurskoðendaráði þannig að allir ráðsmenn yrðu skipaðir án tilnefningar og að starfandi endurskoðendur ættu ekki sæti þar.

„Úr því sem komið er þá teljum við að breytt endurskoðendaráð sé heppilegast en það yrði að skoðast sem algert bráðabirgðaúrræði,“ segir Sigurður B. Arnþórsson framkvæmdastjóri FLE. Í umsögn endurskoðendaráðsins sjálfs er tekið í sama streng, eina raunhæfa lausnin eins og staðan sé nú er að fela sjálfstæðri stjórnsýslunefnd eftirlitið.

„Það er mjög bagalegt hve lengi hefur dregist að afgreiða umrætt frumvarp og ekki síst sú óvissa sem skapast hefur við að ekki sé lengur vilji til að hafa eftirlitið hjá FME,“ segir Sigurður.

Eftirliti safnað saman á einn stað

Í minnisblaði ARN er vikið að því hvort unnt væri að koma á fót sérstakri eftirlitsstofnun með viðskiptatengdri starfsemi sem heyrir undir ráðuneytið en slíkt eftirlit hefur hingað til verið á víð og dreif hjá hinum ýmsu aðilum. Nefnt er til sögunnar eftirlit og leyfisveitingar endurskoðenda, fasteignasala og bifreiðasala en það hefur nú ýmist verið hjá sérstökum eftirlitsnefndum og sýslumönnum. Einnig mætti fækka verkefnum RSK meðal annars með því að færa skráningu fyrirtækja, ársreikningaskrá og IFRS-eftirlit þaðan.

„Við tökum undir að slík stofnun væri vænlegasta leiðin til að hafa eftirlit með fjármála- og viðskiptaumhverfinu. Þangað mætti einnig færa eftirlit með lögmönnum og peningaþvætti og fleira. Eftirlitinu er núna dreift út um víðan völl sem einhvers konar aukaverkefni hjá öðrum stofnunum. Með þessum hætti næðust samlegðaráhrif,“ segir Sigurður.

Slík stofnun verður þó ekki dregin fram úr erminni þegar nokkrar vikur eru í að þingið fari í sumarfrí. Tillaga Sigurðar hljóðar upp á að skipaður verði starfshópur um efnið sem fyrst sem gæti skilað af sér á næsta ári. Með því móti gæti slík stofnun tekið til starfa innan þriggja ára.

 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is