Viðskiptaráðherra Bretlands, Vince Cable, mun leggja það til að stjórnarmenn í fyrirtækjum muni bera persónulega ábyrgð á skuldum fyrirtækja, verði þau gjaldþrota vegna svika eða gáleysis stjórnarmannanna. Önnur breyting sem hann mun leggja til á hlutafélagalögunum bresku er að stjórnarmönnum, sem sýna af sér gáleysi í störfum, verði meinað að sitja í stjórnum annarra fyrirtækja. Er greint frá þessu í frétt BBC.

Til viðbótar mun hann leggja til að eftirlitsstofnanir í einstökum geirum atvinnulífsins fái vald til að meta hæfi stjórnarmanna og eftir atvikum meina einstökum stjórnarmönnum að taka sæti í stjórnum.

Skýrsla þar sem tillögurnar er að finna verður birt í þessari viku.