*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 9. október 2017 11:11

Leggur til sæstreng til Írlands

Vegna ófullnægjandi tenginga við umheiminn hafa fjárfestar hætt við uppbyggingu gagnavera hérlendis.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Pétur Örn Magnússon framkvæmdastjóri ráðgjafar- og verkfræðifyrirtækisins Lotu leggur til að stofnað verði fyrirtæki líkt og Landsnet til að halda utan um flutningsleiðir fjarskipta. Pétur segir skýrslu Samtaka iðnaðarins sem birtist í síðustu viku sína að betur megi víða gera í innviðum, og það eigi líka við um fjarskiptainnviðina að því er fram kemur í Morgunblaðinu

Segir hann tímabært að huga að lagningu fleiri sæstrengja og nefnir hann tengingu við Írland sem dæmi um ódýrari lausn heldur en Danice strengurinn sem tengir Ísland við Danmörku sem í dag myndi kosta um 10 milljarða króna að gera, enda landið stutt frá og með góðar tengingar bæði vestur um haf og til Evrópu

Boðtíminn of langur

„Klárlega vantar fleiri tengingar til Ameríku og boðtíminn á sæstrengjunum þangað er mun hærri en æskilegt væri,“ segir Pétur en hann bendir á að Írland hafi tekist að laða til sín öll stærstu upplýsingatæknifyrirtækin með því að fjárfesta í góðum gagnatengingum yfir Atlantshafið.

„Það er ekki bandvíddin sjálf sem er vandamálið og hægt að senda nógu mikið af gögnum til og frá landinu, en boðtíminn er of langur og líka er hætt við að ef einn strengurinn dettur út þá sé einfaldlega komin upp staða sem kröfuharðir viðskiptavinir geta ekki sætt sig við.“

Ekki hægt að byggja stærri gagnaver

Fyrirtæki hans hefur fengið fengið fjölda fyrirspurna frá útlöndum um aðstæður fyrir gagna- og reikniver hér á landi. „Þessir viðskiptavinir okkar hafa sagt það berum orðum að ófullnægjandi tengingar Íslands við umheiminn séu helsta ástæðan fyrir því að ekki er hægt að byggja hér gagnaver af stærri og fínni gerðinni.“

Auk Danice strengsins eru aðrar tengingar Íslands við umheiminn um Farice 1 strenginn til Færeyja og þaðan til Skotlands og Greenland Connect sem liggur í gegnum Nuuk til Norður Ameríku.