Verkefnishópur um framtíðarskipan húsnæðismála leggur til að Íbúðalánasjóði verði breytt varanlega og núverandi verkefnum hans skipt upp, annars vegar í nýtt húsnæðislánafélag og hins vegar verði mörgum þeim verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnir í dag, ásamt viðbótaverkefnum sem lögð eru til af verkefnisstjórn, sinnt sérstaklega af opinberum aðilum. Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, kynnti skýrsluna í dag.

Nýtt húsnæðisfélag í eigu ríkisins verði sett á fót, en félagið verði rekið á sömu forsendum og önnur húsnæðislánafélög. Engin ríkisábyrgð verður á skuldbindingum þessa félags, samkvæmt tillögum hópsins.

Lagt er til að stofnun verði ný stofnun, Húsnæðisstofnun, sem framkvæma eigi húsnæðisstefnu stjórnvalda og einnig er lagt til að samlegðarmöguleikar Húsnæðisstofnunar og Byggðastofnunar verði skoðaðir.

Samhliða þessum breytingum hætti Íbúðalánasjóður lánveitingum samkvæmt núverandi fyrirkomulagi. Leggur verkefnishópurinn til að lánasafn Íbúðalánasjóðs verði látið renna út og lántakendur sjóðsins fái þjónustu frá húsnæðislánafélagi í eigu ríkissjóðs eða umsýslan verði boðin út. Áfram verði aðalmiðlarakerfi á frum- og eftirmarkaði til staðar fyrir nýja tegund fjármögnunarbréfa og viðskiptavakt á eftirmarkaði íbúðabréfa svo lengi sem þörf er á.