Danski leikfangaframleiðandinn Lego ætlar að loka hluta af starfsemi sinni í Billund í Danmörku og verður stöðugildum hjá fyrirtækinu fækkað um 380 á næstu árum. Í ár verður um 75 starfsmönnum sagt upp og á næsta ári bætast 200 manns í þann hóp. Ekki stendur þó til að hætta starfsemi fyrirtækisins í Billund, en alls starfa um 3.500 manns hjá fyrirtækinu þar. Alls starfa um 9.300 manns hjá Lego um heim allan.

Deildin sem loka á hefur séð um pakkningu á Legokubbum og skreytingu á kössunum. Stjórn fyrirtækisins hefur ákveðið að þessa vinnu eigi að vinna nær kjarnamörkuðum Lego til að tryggja styttri afgreiðslutíma. Framvegis verður þessi vinna unnin í Tékklandi, Ungverjalandi og Mexíkó.

Nú þegar er um 90% af öllum Lego-kubbum sem framleiddir eru í Billund fluttir til annarra landa þar sem þeir eru færðir í kassa.