Eigendur Lego-samstæðunnar hafa ástæðu til að brosa breitt í dag því að samkvæmt afkomutölum þeim sem fyrirtækið birti í dag er hagnaður Lego-samstæðunnar alls 168% meiri á fyrri hluta ársins 2008 en á sama tíma í fyrra.

Á tíunda milljarð í hagnað

Nemur hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta 564 milljónum danskra króna, eða sem nemur um 9,2 milljörðum íslenskra. Hagnaður fyrri hluta ársins 2007 var hins vegar 212 milljónir danskra króna Jørgen Vig Knudstorp, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir góða afkomu skýrast af því að fyrirtækið kunni að haga sér í hallæri, en fyrir fáeinum árum syrti verulega í álinn fyrir Lego og þurfti að grípa til umfangsmikils niðurskurðar til að rétta úr kútnum.

„Við höfðum fyrir rekstrarlíkan sem var fituskorið í bak og fyrir og gat þolað mikinn þrýsting. Þegar kólnar í veðri erum við vel búnir. Þar ræður mestu að við höfum lækkað rekstrarkostnað og byggt upp afar sterkt sölunet,” segir hann.

Reyna á sköpunargáfuna

Hann kveðst líta á Lego-kubba og aðrar vörur samstæðunnar sem tímalaus leikföng sem reyna á sköpunargáfu barna og gagnist þannig einkar vel nútímabörnum, sem eru mötuð um of á sjónvarpi og tölvuleikjum, sköpunargáfu og ímyndunarafli til skaða. Ekki sé verra að Lego-kubbarnir njóti vinsælda foreldra.