Danski leikfangaframleiðandinn Lego hagnaðist um 2,7 milljarða danskra króna, jafnvirði næstum 56 milljarða íslenskra króna, á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 12% aukning á milli ára. Tekjur jukust verulega eða um 11%.

Mestu munar um afar góða sölu á varningi sem tengist kubbamyndinni Lego Movie auk þess sem tæknilegó og kubbar í Lego Star Wars seldust vel.

Haft er eftir John Goodwin, fjármálastjóra Lego, í afkomufrétt breska útvarpsins ( BBC ) að hann sé himinlifandi með gott gengi fyrirtækisins. Spennandi verði að sjá hvernig seinni hluti ársins muni líta út en Lego Movie kom út á DVD í sumar.