Leikfangaframleiðandinn Lego hyggst fjárfesta meira en einum milljarði dala í byggingu verksmiðju í Víetnam til að bregðast við aukinni eftirspurn í Asíu og efla aðfangakeðjuna sína. Bygging verksmiðjunnar hefst á fyrri hluta næsta árs, en stefnt er að hefja framleiðslu árið 2024. Verksmiðjan verður staðsett um fimmtíu kílómetrum frá borginni Ho Chi Minh City, viðskiptamiðstöð Víetnam. Þetta kemur fram í frétt Financial Times .

Þetta verður sjötta verksmiðja Lego, en leikfangaframleiðandinn á nú þegar þrjár verksmiðjur í Evrópu, eina í Kína og aðra í Mexíkó. Aukin eftirspurn eftir vörum Lego hefur fylgt mikilli upprisu millistéttarinnar í Suðaustur-Asíu og á nýja verksmiðjan að sinna eftirspurninni.

„Okkar stefna er að vera með staðbundna framleiðslu og bregðast staðbundið við eftirspurnarbreytingum," segir Carsten Rasmussen, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Lego í samtali við Financial Times og bætir við að verksmiðjan muni búa til um fjögur þúsund störf í Víetnam á næstu fimmtán árum. Verksmiðja Lego í Kína mun sinna framleiðslu leikfanga fyrir markaði í  Kína, Suður-Kóreu og Japan, en nýja verksmiðjan í Víetnam á að sinna öðrum ríkjum álfunnar.

Þetta verður jafnframt fyrsta kolefnisjafnaða verksmiðja Lego, en hún mun reiða sig á sólarorku frá sólarorkuveri skammt frá verksmiðjunni.