Glæpamenn í Bandaríkjunum eru í auknum mæli farnir að horfa til Lego-kubba sem vænlegs ránsfengs, að því er segir í frétt á vefsíðunni Geek.com. Þar er greint frá því að bandarískir lögreglumenn hafi í tveimur tilvikum handtekið fólk fyrir þjófnað á Legokubbapökkum og nemur andvirði þýfisins samtals um 35 milljónum króna.

Í Nassau-sýslu í New York var 53 ára gömul kona handtekin fyrir að vera með 800 stolna Legopakka að andvirði um 8 milljóna króna og í Phoenix í Arizona voru fjórir handeknir og lagt hald á Legopakka að andvirði 27 milljóna króna.

Ástæða þessa áhuga er sögð vera sú að eftirspurn eftir Lego, einkum pökkum sem hafa söfnunargildi, er mjög mikil, eins og sjá má á uppboðssíðum eins og eBay. Þetta þýðir að þjófar þurfa oft ekki að selja þýfið með afslætti, eins og þeir þurfa almennt að gera, og stundum bíða þeir með að selja pakkana og geta þá selt þá fyrir enn hærri fjárhæðir.