Ekki gengur upp að rukka sjúklinga Landspítalans um legugjöld miðað við þær áætlanir sem settar eru fram í fjármálafrumvarpi næsta árs, að mati forstjórans, Páls Matthíassonar. Miðað er við að legugjöldin verði 1.200 krónur fyrir hverja nótt. Fréttablaðið hefur eftir Páli í dag að dæmið gangi ekki upp þar sem aldraðir eru um helmingur sjúklinga spítalans og hátt hlutfall eru öryrkjar og börn. Því séu fáir eftir sem geti greitt gjöldin.

Í Fréttablaðinu segir að þessu til viðbótar hafi vanskil einstaklinga vegna þjónustugjalda spítalans aukist. Óinnheimtar viðskiptakröfur Landspítalans vegna einstaklinga hafa hækkað umtalsvert síðastliðin ár en þau námu 47,2 milljónum króna árið 2011. Í júní á þessu ári námu þær 102 milljónum króna.