Fjárfestingabankinn Lehman Brothers mun að öllum líkindum verða tekinn til gjaldþrotaskipta á mánudagsmorgun.

Breski fjárfestingabankinn Barclays hætti við á síðustu stundu að koma til bjargar og taka bankann yfir.

Brotthvarf Barclays orsakar það að Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna og Tim Geithner, forseti Seðlabanka Bandaríkjanna, reyna nú að koma bankanum til bjargar á seinustu stundum.

Talið er að gjaldþrot Lehman muni skekja alla hlutabréfa markaði heims á mánudagsmorgun og orsaka miklar lækkanir.

Um 24.000 manns starfa hjá Lehman í Bandaríkjunum og um 4.000 í London. Gjaldþrotið yrði stærsta einstaka dauðsfall fjármálastofnunar frá því að lausafjárkreppan gerði vart við sig á fjármagnsmörkuðum, og eitt stærsta gjaldþrotið í sögu bandarísks viðskiptalífs.

Haft er eftir Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna í frétt Telegraph að um sé að ræða verstu fjármálakreppu sem hann hafi nokkurn tímann séð, og að Lehman verði ekki síðasta stóra fyrirtækið til að verða gjaldþrota: „Við munum sjá önnur stórfyrirtæki rúlla,” segir hann.