Gengi bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers sveiflaðist nokkuð í gær og þá aðallega niður á við eftir að orðrómur fór af stað um það í fjölmiðlum vestanhafs að bankinn ætti í miklum lausafjárerfiðleikum og myndi á næstu dögum fara í hlutafjárútboð til að styrkja eigin fjárstöðu.

Eins var rætt og skrifað um það að bankinn myndi slá „neyðarlán“, eins og Reuters fréttastofan hafði eftir einum viðmælanda, frá bandaríska seðlabankanum.

Við lok markaða hafði gengi bankans lækkað um 9,5% en hafðu þó um tíma lækkað um allt að 15%

Forsvarsmenn Lehman Brothers neituðu því staðfastlega í gærkvöldi að bankinn ætti í lausafjárerfiðleikum og sögðu fréttir af þessu máli úr lausu lofti gripnar.

Þá sagði talsmaður Lehman við fjölmiðla að bankinn væri ekki á sömu leið og Bear Stearns eins og fullyrt var í einstaka fjölmiðlum vestanhafs.

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér seinni part dags segir að eigin fjárstaða Lehman Brothers sé með betra móti og hafi aukist síðustu mánuði.

„Eftir fyrsta ársfjórðung var eigið fjármagn um 34 milljarðar (dalir) og mun líklega vera um 40 milljarðar á öðrum ársfjórðungi,“ segir í tilkynningunni en breska blaðið The Guardian greinir frá.

Wall Street Journal greinir frá því í gær að Lehman Brothers þurfi að afla sér allt að 4 milljarða dollara aukalega í lausafé og þá var einnig gert ráð fyrir að bankinn myndi tilkynna um mikið tap á öðrum ársfjórðungi.

Greiningaraðilar vestanhafs eru þó ekki á einu máli um þetta og skiptar skoðanir eru meðal þeirra um afkomu bankans.