Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers hyggst segja upp um 1.300 manns á næstunni til viðbótar við þá 5.000 manns sem bankinn hefur sagt upp frá því í haust.

Þetta er um 5% starfsmanna bankans en þetta kemur fram á vef Reuters.

Bankar og fjárfestingafélög beggja megin Atlantshafsins hafa frá því í haust sagt upp mikið af fólk eða yfir 50 þúsund manns. Fyrr í þessum mánuði sagði svissneski bankinn UBS um 5.500 manns upp.

Þá greindi Reuters fréttastofan frá því í gær að talið er að tæplega 60 þúsund störf kunni að tapast til viðbótar í New York einni saman á næstu 12-18 mánuðum þar sem félög hafa kynnt hagræðingu í rekstri sínum og lagt kapp á að ná niður rekstrarkostnaði.