Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans Lehman Brothers lækkaði um 57% á fyrsta ársfjórðungi eftir afskriftir.

Hagnaður bankans á ársfjórðungnum lækkaði um það sem nemur 489 milljónum Bandaríkjadölum eða 81 cent á hlut. Tap bankans er þó minna en gert hafði verið ráð fyrir.

Forstjóri bankans, Richard Fuld sagði markaði nú viðkvæma aðeins tveimur dögum eftir að Bear Stearns bankinn var seldur á brunaútsölu.

Fram kemur í tilkynningu bankans í dag að rekstrarhorfur séu sæmilegar hvað bankann varðar en áfram verði unnið að því að treysta eigin fjárstöðu og sagði Fuld í samtali við Reuters fréttastofuna að hann útilokaði ekki endurfjármögnun. „Þetta sleppur fyrir horn núna," sagði hann í gamansemi.

Viðmælandi Bloomberg segir afkomu bankans koma á óvart en greint var frá því í fjölmiðlum í gær að Lehman Brothers kynni að vera „næstur í röðinni“ á eftir Bear Stearns.

Bankinn hefur síðustu sjö mánuði sagt upp 5.300 manns eða 19% starfsmanna sinna. Þá hefur ákveðnum sviðum innan bankans verið lokað.