Bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers tapaði um 3,9 milljörðum Bandaríkjadala (um 356 milljarðar ísl.kr.) á þriðja ársfjórðungi en bankinn flýtti birtingu uppgjörs síns til dagsins í dag.

Vikan virðist ætla að vera slæm hjá Lehman Brothers en þegar var búist við að bankinn myndi tilkynna um mikið tap á ársfjórðungnum og lækkuðu hlutabréf í bankanum um 46% í gær.

Fyrr í dag bárust einnig þær fréttir að Þróunarbanki Kóreu, Korea Development Bank (KDB) hefði slitið viðræðum við Lehman Brothers vegna ágreinings við stjórnendur en KDB hafði áætlað að kaupa stóran hlut í bankanum.

Að sögn Reuters fréttastofunnar hafði stjórn Lehman Brothers vonast til að geta tilkynnt um samstarf við KDB fyrir birtingu uppgjörsins.

Þá greinir Reuters frá því að lítil trú sé meðal bæði fjárfesta og greiningardeild á því að bankinn muni afla nægs hlutafé til að halda áfram starfssemi þó ekki sé gengið svo langt að spá honum gjaldþroti.

Þó tilkynnti bankinn að til stæði að selja mikið af eignum bankans og boðaði Richard Fuld, forstjóri bankans að miklar endurbætur og skipulagsbreytingar væru framundan.