Lehman Brothers gefur út vísitölu um áhættu í nýmarkaðsríkjum og í anda annálaðs áhuga bankamanna á bókmenntum er hún kennd við metnaðarfullan Grikkja er gekk undir nafninu Demókles.

Vísitölunni er ætlað að mæla yfirvofandi áhættu í viðkomandi hagkerfum og rétt eins og í fyrra nýtur íslenska hagkerfið þess vafasama heiðurs að tróna á toppnum.

Samkvæmt útreikningum sérfræðinga bankans er vísitölugildið fyrir Ísland 81 miðað við síðasta marsmánuð. Aðferðafræðin að baki útreikningunum boðar að það þýðir að það séu ríflega 40% líkur á því að ytri fjármálakreppa skelli á íslenska hagkerfinu.

Víetnam og Rúmenía fylgja í kjölfarið og telja sérfræðingarnir um 33% líkur á því að hið sama gerist á þeim slóðum.

Leiðréttingin hafin og viðsnúningurinn hraður

Skýrsluhöfundar benda á að þróunin í hagkerfinu sýni að það hafi verið rétt hjá þeim að skilgreina Ísland sem áhættusamasta hagkerfið í vísitölunni í fyrra.

Hins vegar telja þeir Íslendingum það til tekna hversu mikil leiðrétting hefur nú þegar átt sér stað: Gengi krónunnar hafi fallið um 50% síðustu tólf mánuði og hagkerfið sé eitt fárra sem hefur gengið í gegnum hreinræktaða gjaldeyriskreppu frá því lánsfjárkreppan skall á.

Þeir rekja gengislækkunina til ótta fjárfesta um stærð bankakerfisins gagnvart heildarhagkerfinu og getu ríkisins til þess að sinna hlutverki þrautalánveitanda. Hætturnar eru ekki horfnar þar sem íslensk heimili þurfi nú að velta á undan sér erlendum skuldum vegna veikingar gengis krónunnar og samdráttar á fasteignamarkaði.

Þrátt fyrir að sverð Demóklesar hangi yfir íslenska hagkerfinu að mati sérfræðinga Lehman Brothers búast þeir við hröðum viðsnúningi á síðari hluta þessa árs.

Þeir gera ráð fyrir ruðningsáhrifum vegna víðtækrar fjárfestingar í stóriðju og telja að boðaður gjaldeyrisskiptasamningum Seðlabanka Íslands við norræna seðlabanka muni minnka líkurnar á fjármálakreppu og frekari gengislækkun krónunnar.