Tyrkneska símafyrirtækið Turk Telekom og fimm alþjóðlegir fjárfestingasjóðir hafa verið valdir sem hugsanlegir kaupendur að búlgarska símafyrirtækinu BTC af bandaríska fjárfestingabankanum Lehman Brothers, segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins í Búlgaríu og London. Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, á kaupréttinn að 65% hlut í BTC.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að Novator hefði ráðið bandaríska bankann til að finna kaupendur að hlut félagsins í BTC í kjölfar áhuga fjárfestingsjóða á fyrirtækinu. Fjárfestingasjóðirnir fimm sem um ræðir eru Bain Capital, Mid Europa Partners, Providence Equity Partners, sem gerði tilboð í Símann árið 2005, Texas Pacific og Warburg Pincus. Mögulegt er að fleiri sjóðir eigi eftir að koma inn í ferlið síðar.

Sérfræðingar benda á að hugsanlegur kaupendahópur hafi myndast mun fyrr en áætlað var og telja nú líklegt að gengið verði frá kaupum á BTC á öðrum ársfjórðungi. Markaðsvirði BTC hefur aukist gífurlega frá því að bandaríski fjárfestingasjóðurinn Advent International leiddi skuldsetta yfirtöku á félaginu árið 2004 fyrir 230 milljónir evra, sem samsvarar rúmlega 20 milljörðum íslenskra króna. Markaðsvirði félagsins um miðjan dag í gær var rúmlega 147 milljarðar íslenskra króna og hafði gengi bréfanna hækkað um 19,83% um klukkan eitt í gær. Verðmæti hlutar Novators hefur því aukist um tæplega 75 milljarða króna.

Novator tryggði sér kaupréttinn að eignarhlutnum í desember árið 2005. Samkvæmt reglum einkavæðingarnefndar Búlgaríu má Novator ekki eignast hlutinn fyrr en síðar á þessu ári og er hluturinn því skráður á Advent í gegnum eignarhaldsfélagið Viva Ventures. Ef af sölunni verður mun hún verða önnur útganga Novators á skömmum tíma en fjárfestingafélagið seldi hlut sinn í tékkneska fjarskiptafélaginu Ceske Radiokomunikace í nóvember síðastliðnum og talið er að söluhagnðurinn hafi numið um 56 milljörðum króna.

Advent og meðfjárfestar samþykktu að eyða um einum milljarði evra í uppbyggingu innviða BTC, sem hefur að mestu verið fjármagnað með fjárstreymi félagsins. Hagnaður BTC jókst um 15% á árinu 2006 í 130 milljónir búlgarskra leva, þrátt fyrir mikið tap af rekstri farsímaarmsins Vivatel. Tapreksturinn má að miklu leyti rekja til stofnkostnaðar. Sérfræðingar útiloka ekki að mögulegt sé að brjóta upp BTC og kljúfa Vivatel út úr samstæðunni. Flestir eru þó sammála að landlínureksturinn og farsímafélagið saman séu áhugaverðari kostur fyrir fjárfesta.