Fjölmiðlakonan Kolbrún Björnsdóttir er byrjuð að vinna í Kria Cycles hjólabúðinni úti á Granda og er komin á fullt í hjólreiðar, þó að aðdragandinn hafi ekki verið mjög langur. „Friðrika vinkona mín á 365 hún hvatti mig til að taka þátt í Wow Cyclothon. Mér fannst það klikkuð hugmynd fyrst en nógu klikkuð til að ég sló til," segir Kolbrún. Hún hafi þá farið og keypt sér hjól og orðið algjörlega dolfallin fyrir hjólreiðum.

„Það ættu allir að prófa. Þegar ég fór fyrst á hjólið, sem ég hafði ekki gert frá því ég var krakki þá leið mér eins og ég væri tíu ára aftur og bara brosti hringinn," segir hún.

Fékk allt í einum pakka

En hvað er svona skemmtilegt við hjólreiðar? „Það er bara útiveran. Það er æðislegt að fá vindinn í andlitið og súrefni í lungun. Svo fer maður svo hratt yfir og stemning fyrir þessu. Svo er fullt af skemmtilegu fólki í þessu og þetta er frábær líkamsrækt. Ég var búin að leita mér að líkamsrækt sem ég hafði gaman að og fann hana loksins þannig að ég ákvað að taka þetta alla leið og bara vinna við þetta líka," segir Kolbrún sem segir að hún hafi fengið allt í einum pakka í gegnum hjólreiðarnar.

Hún segir iðkendum sífellt fjölga, og þá sérstaklega konum. „Það er ótrúlegt að sjá hvað konur eru að verða rosalega margar á hjólum. Ég er einmitt að vonast til þess að þeim fjölgi enn frekar. Eins og margar aðrar íþróttagreinar hefur þetta verið karlasport hingað til út um allan heim. En við ætlum að breyta því," segir Kolbrún að lokum og hlær.