Hillary Clinton verður að halda í vatnafylkin Michigan og Wisconsin ásamt Pennsylvaníu til að tryggja sér sigurinn í forsetakosningunum á morgun.

Í morgun fjallaði Viðskiptablaðið um hvernig kosningakerfið í Bandaríkjunum stýrir kosningabaráttu keppinautar hennar, Donald Trump.

Forysta í utankjörfundaratkvæðum

Trump hefur lagt mikið á sig til að ná árangri í þessum fylkjum, en Hillary hefur að jafnaði haft yfirburði í skoðanakönnunum í öllum þremur.

Hins vegar kjósa flestir í Michigan og Pennsylvaníu á kosningadag svo kosningabaráttu hennar hefur ekki tekist að tryggja forystu með utankjörfundaratkvæðagreiðslu líkt og víða annars staðar.

Konur, háskólamenntaðir og rómanskir kjósendur tryggi sigurinn

Ef henni tekst að halda þessum þremur auk þess að sigra einungis eitt af Norður Karólínu, Flórída eða Ohio er hún nánast búin að tryggja sér sigurinn.

Ef hún getur hins vegar ekki unnið eitt þessara þriggja ríkja, þá verður hún að halda Virginíu, Colorado þar sem póstkosning fer fram, New Hampshire og Nevada, en þar hafa demókratar núþegar náð góðri forystu með utankjörfundaratkvæðum.

Ef Hillary Clinton vinnur kosningarnar mun hennar helsti stuðningur liggja í kvenkyns kjósendum, háskólamenntuðum og bylgju nýrra kjósenda af latneskum uppruna.