SmartGuide veitir leiðsögumönnum vettvang til að koma sér á framfæri og leiðir þá saman bæði við ferðaskipuleggjendur og beint við ferðamenn.

Þrír tímar á dag í að leita
Hugmyndin kviknaði árið 2015 hjá Hauki Viðari Jónssyni þegar hann sá hvernig málum var háttað hjá ferðaskipulagningafyrirtæki föður síns, Gateway to Iceland. „Konurnar á skrifstofunni voru að eyða svona þremur tímur á dag í að bóka leiðsögumenn fyrir næstu ferðir. Þau voru með sína lista yfir leiðsögumenn sem þau byrjuðu á að heyra í. Eins og við má búast gátu þeir þó verið búnir að bóka sig annað, ekki að vinna þann daginn og þar fram eftir götunum.“

Haukur sá sér því leik á borði og útbjó í samstarfi við æskuvin sinn, Ægi Finnsson, fyrstu útgáfuna, Guides, sem snerist alfarið um að koma saman leiðsögumönnum og ferðaskipuleggjendum.

Einskis virði án leiðsögumanna
Þegar notkun Guides fór að minnka vegna aukinna fastráðninga leiðsögumanna fóru Haukur og Ægir hins vegar að velta betur fyrir sér eðli og framtíð þess.

„Við héldum í upphafi að okkar kjarnaviðskiptavinir væru ferðaskipuleggjendurnir. Kerfið var jú smíðað til að leysa þeirra vandamál með þá og þeirra þarfir í huga. Síðar komumst við hins vegar að því að það eru í raun og veru leiðsögumennirnir. Gagnagrunnurinn yfir leiðsögumenn er varan okkar. Án þeirra erum við einskis virði. Af hverju erum við að einskorða okkur við ferðaskipuleggjendur? Við erum með gagnagrunn af leiðsögumönnum, þeir vilja bara fá eins mikið að gera og þeir geta, og þeir hafa sérstaklega gaman af og mikið upp úr einkaferðum.“

Guides verður SmartGuide
Það lá því beint við að gera leiðsögumönnum og ferðamönnum kleift að koma sér saman beint í gegnum kerfið, í stað þess að ferðaskipuleggjendur þyrftu alltaf að eiga milligöngu þar um.

Í kjölfarið var nafninu breytt í SmartGuide, og nú stendur til að færa út kvíarnar til Skandinavíu. „Við erum að opna núna í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, og leiðsögumenn þar eru byrjaðir að skrá sig. Við stefnum að því núna á næsta ári að vera orðið svona nokkuð alþjóðlegt fyrirtæki,“ segir Haukur að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .