Í kjölfar skipulagsbreytinga hafa tveir einstaklingar tekið að sér að leiða starfsemi Icelandair á sviði stafrænnar þróunar en það eru þau Guðmundur Guðnason og Valeria Rivina.

Guðmundur Guðnason hefur tekið við nýrri stöðu sem leiðtogi stafrænna umbreytinga hjá Icelandair. Hann hefur undanfarin 2 ár verið forstöðumaður í stafrænni þróun hjá Icelandair og leitt uppbyggingu á  „Digital Labs“ og þar með talið endurhönnun á stafrænu umhverfi og innviðum félagsins. Þessi breyting er gerð til að tryggja áframhaldandi umbreytingu allrar samstæðunnar og jafnframt að halda áfram að styrkja og þróa þá einingu sem vinnur í þróun, hönnun og framleiðslu á stafrænum lausnum. Áður en Guðmundur kom til Icelandair starfaði hann hjá Sabre Airline Solutions en hefur á sínum ferli komið að þróun hugbúnaðar, rekstri, ráðgjöf og stjórnun hjá bæði litlum sprotafyrirtækjum og alþjóðlegum stórfyrirtækjum. Guðmundur er með BS í tölvunarfræði og er að ljúka MS gráðu í upplýsingastjórnun. Hann er giftur Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingi og eiga þau tvö börn.

Valeria Rivina hefur verið ráðinn forstöðumaður Stafrænnar Viðskiptaþróunnar (Digital Business Development). Valeria hefur undanfarin tvö ár starfað sem teymisþjálfari hjá Icelandair Digital Business Development, komið að mörgum þáttum er snúa að uppbyggingu deildarinnar og innleiðingu Agile hugmyndafræðinnar. Áður en hún kom til Icelandair starfaði hún í tvö ár sem verkefnastjóri og hópstjóri hjá Plain Vanilla. Á undan því, 2012-2014, starfaði Valeria sem hópstjóri Baksviðs hjá Nova og einnig sem sölu- og þjónusturáðgjafi hjá sama fyrirtæki á árunum 2007-2009. Valeria útskrifaðist með B.S.c. gráðu í Rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2012. Einnig lauk hún Diplomanámi í APME Verkefnastjórnun frá sama skóla árið 2014. Hún stundar nú nám sem Markþjálfi við Háskólann í Reykjavík og hyggur á útskrift í vor. Valeria er gift Óttari Angantýssyni, Sölustjóra hjá Ölgerðinni, og eiga þau saman tvö börn.