Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) hækkaði um 0,1% í ágúst eftir lækkun í mánuðinum þar á undan. Hagvísirinn bendir áfram til hagvaxtar yfir langtímaleitni.

Þrír undirliðir sem notaðir voru til að reikna hagvísinn hækkuðu, það er, innflutningur, væntingavísitala Gallup og verðmæti fiskafla. Hins vegar lækka aðrir undirliðir. Þeir tveir þættir sem höfðu hvað mest áhrif voru fiskafli og innflutningur.

Í fréttatilkynningu Analytica kemur fram að „mikill vöxtur er enn í komum ferðamanna frá fyrra ári og langtímauppleitni einstakra undirþátta virðist enn að styrkjast. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum, óvissu í efnahagsmálum nýmarkaðsríkja og Kína.“

Leiðandi hagvísir Analytica gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Hugmyndin sem liggur að baki hagvísinum er að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.

Hér er hægt að rýna nánar í Leiðandi Hagvísi Analytica.