Leiðandi hagvísir ráðgjafarfyrirtækisins Analytica lækkaði lítillega í júní og tölur fyrir apríl og maí eru endurskoðaðar niðurávið. Í tilkynningu segir að hagvísirinn bendi enn til aukinna efnahagsumsvifa í haust en að hann gefi til kynna tiltölulega hægan vöxt næstu mánuði.

Þegar litið sé á árið í heild bendi hagvísirinn til að hagvöxtur verði fremur dræmur. Þannig séu líkur á að hagvöxtur ársins gæti orðið 1-2%. Ekki sé ljóst hvort lækkun hagvísisins sé marktæk vísbending um samdrátt á næsta ári en litið verði til þróunar næstu mánaða í því samhengi.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í júní fækkar um tvo þeim undirþáttum sem hækka en nú hækka fjórir. Fjölgun erlendra ferðamanna er enn ör. Nokkrar sveiflur eru í aflabrögðum og lítilsháttar samdráttur er í debetkortaveltu og vöruinnflutningi.

Leiðandi hagvísir Analytica lækkar um 0,2% í júní og tekur gildið 102,9. Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar þ.e. í desember.