Leiðandi hagvísir Analytica lækkar í júní, sautjánda mánuðinn í röð. Lækkun hagvísisins sl. ár er hin mesta síðan árið 2008. Þetta kemur fram á vef Analytica.

Þar sem ekki eru enn merki um viðsnúning hagvísisins uppávið þá eru talsverðar líkur á stöðnun eða samdrætti inn á árið 2020.

„Allir sex undirliðir lækka frá í maí en mesta framlag til lækkunar hafa þróun ferðamanna­fjölda, vöruinnflutnings og aflamagns. Langtímaupp­leitni mikilvægra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum," segir í frétt á vef fyrirtækisins.

„Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efna­hagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efna­hags­umsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferða­fræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD."