Það er ekkert sem heitir hefðbundinn dagur hjá Hampiðjunni. Starfsmenn þjónusta við framleiðslu og viðhald á veiðarfærum. Ef það þarf að veita þjónustu gerum við það hvenær sem er og þá er unnið um helgar og á kvöldin,“ segir Árni Skúlason, framleiðslustjóri hjá Hampiðjunni. Hann hefur unnið í netagerð frá 19 ára aldri, er netagerðarmeistari að mennt og iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskólanum. Árni hefur unnið hjá Hampiðjunni í 21 ár.

Erfitt að skipuleggja daginn

Starf Árna felst mestmegnis í því að skipuleggja daglega framleiðslu. „Það er mjög oft sem þú ferð af stað á morgnana og skipuleggur eitthvað en svo kemur eitthvað annað upp. Menn eyðileggja veiðarfærin og þurfa ný í hvelli. Þá þarf að endurraða öllu og bregðast við. Ef við eigum efnið og höfum tíma reynum við að hliðra til og afgreiða það sem þarf sem fyrst. Við vorum til dæmis hérna alla helgina því hingað kom Rússi með rifið troll og við kláruðum það seinnipart sunnudags.“

Dagurinn hefst klukkan hálf átta og unnið er til hálf sex flesta daga. Netagerðin er handavinna, það eru engar vélar í gangi í framleiðslunni. Notast er við hráefni sem framleitt er í Litháen og setja starfsmenn netin saman hér sem eru svo til sölu um allan heim. „Þjónustan er fyrst og fremst við Ísland og úthafskarfa, það eru einnig erlend skip. Við erum einnig að þjónusta makrílflotann við Grænland og stundum þjónustum við Færeyjar,“ segir Árni. „Það er nokkuð jafnt að gera yfir árið, en mest að gera fyrri hluta ársins. Minna er að gera á haustin, en þá er viðhaldsvinna í gangi fyrir næstu vertíð.“ Fyrirtækið selur mest til Færeyja, Bandaríkjanna og Rússlands, en nokkur sala er einnig til Grænlands, Noregs og Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .