Strætó bs. fékk á árinu 14 rafdrifna stætisvagna frá Yutong Eurobus sem framleiddir eru í Kína. Þar með eru um 10% af flota Strætó knúin með rafmagni. Ekkert sambærilegt fyrirtæki á Vesturlöndum hefur sama hlutfall rafdrifinna vagna í flota sínum.

Kínverskir framleiðendur eru í dag leiðandi í smíði rafvagna, rafleigubíla og rafvörubíla í heiminum. Þeir framleiddu 99% af öllum rafdrifnum almenningsvögnum árin 2014-2017. Eru þetta um 385 þúsund vagnar sem langflestir eru í notkun í Kína. Á hverjum fimm vikum bæta kínverskar borgir í flota sinn 9.500 vögnum sem ganga fyrir endurnýjanlegri orku, skv. Bloomberg. Það samsvarar öllum flota Lundúna. Ástæðan er ekki síst sú að kínversk stjórnvöld hafa í um áratug lagt mikla áherslu á að bæta loftgæði í borgum Kína. Stærri ökutæki sem knúin eru dísilolíu hafa mikil áhrif á loftgæðin. Kínverjar eru einnig framarlega í framleiðslu rafbíla og stærsti einstaki markaðurinn fyrir rafbíla er í Kína.

Í kjölfar Parísarráðstefnunnar 2015 um verndun loftslagsins varð vakning á Norðurlöndunum. Sífellt fleiri norrænar borgir hafa sett sér það takmark að setja rafvæðingu almannasamgangna í forgang. Sama er uppi á teningnum varðandi einkabíla og nýlega lýsti t.d. Volkswagen yfir að næsta kynslóð bensínvéla í bílum þeirra yrði hin síðasta. Hugmyndir um að banna dísilbíla hafa komið fram víða en einnig eru margar borgir farnar að skoða kosti rafvagna, ekki síst á Norðurlöndunum.  Í Lundúnum eru komnir rafdrifnir tveggja hæða strætisvagnar og einnig rafdrifnir Lundúnaleigubílar.

Ísland skarar fram úr

Nýju rafvagnarnir voru afhentir Strætó við hátíðlega athöfn í Hörpu þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, kínverski sendiherrann Jin Zhijian og Björg Fenger stjórnarformaður fluttu ávörp ásamt Benedikt og Kent Chang, sem er einn af framkvæmdastjórum Yutong-verksmiðjanna.

Benedikt G. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Yutong Eurobus á Íslandi, hélt ávarp við afhendingu á síðustu vögnunum í lok nóvember. „Ég er mjög ánægður með samstarfið við Strætó bs og ekki síður með þá afgerandi forystu sem fyrirtækið hefur tekið á alþjóðavísu með rafvæðingu strætóflotans. Það gera sér líklega fáir grein fyrir að í stórborgum Evrópu hefur ekkert fyrirtæki jafn hátt hlutfall rafvagna í flota sínum og Strætó bs. Að þessu leyti má segja að Ísland skari fram úr í dag.“ sagði Benedikt. Fyrirtæki hans sér einnig um sölu á Yutong Eurobus á Norðurlöndunum en það hefur tekið þátt í nokkrum útboðum á undanförnu í Danmörku og Svíþjóð.

Benedikt sagði í samtali við Áramót að ánægjulegt væri hversu vel vagnarnir hefðu reynst á þeim stutta tíma sem liðinn er frá komu þeirra. „Fyrstu fjórir vagnarnir komu um síðastliðna páska. Þeim var ekið beint úr ferjunni í Þorlákshöfn og  þetta verkefni hefur gengið mjög vel í alla staði. Það er ekki síður frábært að bæði bílstjórarnir hjá Strætó bs og farþegar hafa verið mjög ánægðir með rafvagnana.“

Stærsti framleiðandi í heimi

Yutong-verksmiðjunar eru stærsti framleiðandi almenningsvagna í heiminum. Þær framleiddu á síðasta ári yfir 60 þúsund vagna, þar af um 24 þúsund rafdrifna. Yutong hefur smíðað hreina rafmagnsvagna frá 1999 og hefur góða reynslu og þekkingu ekki hvað síst fyrir kaldari svæði en nyrst í Kína fer frostið niður fyrir -35°. Helsti kostur Yutong-vagnanna er drægnin. Þeir komast 300 km á einni hleðslu sem Benedikt kveður það besta sem þekkist á markaðnum í dag.

„Kínverjar verja gríðarlegum fjármunum í þróun á rafgeymum og geymarnir eru alltaf að léttast og varðveita meiri orku. Okkar fyrirtæki er með samninga um að nota aðeins rafgeyma frá CATL, sem er kínverskt stórfyrirtæki sem kalla má spútník á sviði rafgeymaframleiðslu. BMW, Volkswagen og Hyundai nota þeirra geyma í alla bíla sem þessi fyrirtæki framleiða í Kína. Við gefum út 7 ára ábyrgð á rafgeymunum frá þeim sem þýðir að við ábyrgjumst að eftir þann tíma fara þeir ekki undir 80% af upphaflegri getu. Nú er hins vegar bylting framundan í þessu efni því á næsta ári kemur fyrirtækið með rafgeyma á markað sem halda þeirri hleðslu í 15 ár.“

Benedikt segir aðeins spurningu um tíma hvenær fram komi rafgeymar sem geri rafdrifnum vögnum mögulegt að draga 500 km á einni hleðslu. „Það gerbreytir landslaginu því það þýðir að á lengri leiðum milli borga og landsvæða geta menn skipt yfir í rafmagn alveg eins og nú er að gerast út um allt innan borganna.“ Hann segir jafnframt að byltingarkenndar uppgötvanir á sviði orkugeymslu í rafhlöðum sem séu að koma fram, ekki síst í Kína, gefi fyrirheit um miklu langdrægari rafvagna en það.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .