*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 28. júlí 2019 17:02

Leiðinlegu fyrirtækin lifa

„Þegar við erum yfirborðskennd búum við til falleg orð, en þau eru flest algert bull,“ segir bandarískur prófessor.

Höskuldur Marselíusarson
Rætt var við Jay Rao, prófessor við Babson viðskiptaháskólann, eftir að blaðamaður sat undir hressandi fyrirlestri hans þar sem hann blés á allar helstu bábiljur og bull sem víða þrífast í viðskiptalífinu.
Höskuldur Marselíusarson

Prófessor í frumkvöðlafræðum við aldargamlan bandarískan viðskiptaháskóla gefur lítið fyrir áherslur á unga og vinsæla frumkvöðla og stórfyrirtæki sem þurfa ótakmarkað fjármagn sem á að skila sér einhvern tímann. Heldur sé það, eins og fram kemur í fyrri hluta spjalls hans við Viðskiptablaðið, reynslumikið fólk, minni fyrirtæki og markaðskimar eins og Ísland sem geti skapað raunveruleg verðmæti

Nýlega var hópur MBA-nemenda við HR, sem er í samstarfi við Babson skólann, í nokkurra daga heimsókn í Bostonborg, þar sem meðal annars var sótt námskeið hjá Jay Rao prófessor í frumkvöðlafræðum við skólann og fleiri kennurum skólans. Þar fékk blaðamaður Viðskiptablaðsins tækifæri til að setjast niður með honum og ræða um viðskiptaumhverfið og nýsköpun.

Var það sérstaklega hressandi að heyra raunsæja sýn á heiminn í kennslu hans, sem var í hróplegri mótsögn við háfleygar yfirlýsingar starfsmanna á skrifstofum Google og Amazon, sem hópurinn hafði heimsótt daginn áður, um að þar væru menn ekkert að hugsa um peningana eða hvort hægt væri að græða á lausnum þeirra, einungis að þær gætu bætt heiminn.

„Þegar við erum yfirborðskennd búum við til falleg orð, en þau eru flest algert bull,“ segir Rao fullum fetum um slíkt orðskrúð og bendir á að víðast hvar í heiminum hafa frumkvöðlar ekki aðgang að áhættufjármögnun.

„Einungis um  0,2% nýsköpunarfyrirtækja fá áhættufjármagn en á sama tíma einblínir mestallur viðskiptaheimurinn á hlutafélög á markaði og þessi stóru frumkvöðlafyrirtæki sem kallaðir eru einhyrningar, og þurfa á milljörðum dala í fjárfestingar til að komast á fót og starfa. Samt sem áður eru fyrirtæki eins og þau sem koma upp úr Sílikondalnum einungis með um 10% af heimsmarkaðnum, því enn í dag snúast 90% af þróuðum hagkerfum um framleiðslu.

Við eigum til að verða ástfangin af kynþokka stórfyrirtækja eins og Amazon og Google, meðan flestir nemendur sem koma til Babson eru með bakgrunn í fjölskyldufyrirtækjum sem ekki geta hugsað á þeim nótum að safna bara einhverjum fimm til tíu milljörðum dala í fjárfestingar og græða ekkert á fjárfestingunni í tíu ár, en fara svo loksins á markað og ná þá fjárfestingunni til baka. Þvert á móti eru þetta venjuleg minni fyrirtæki sem þurfa að vera hófsöm í fjárfestingum sínum, kannski eitthvað í kringum hálfa milljón til milljón dala, og reyna svo að ná því til baka á þremur eða fjórum árum.“

Wow air og móðurfélag Actavis víti til varnaðar

Sem víti til varnaðar nefnir Rao meðal annars Wow air, sem hafi vaxið of hratt. „En það er alls ekki eina dæmið, þetta hefur verið að gerast úti um allan heim. Má þar nefna Hainan í Kína, sem var risastór fyrirtækjasamsteypa sem allir elskuðu, og síðan, eins og ég nefndi í tímanum, lyfjafyrirtækið Teva frá Ísrael. Bæði lentu þessi fyrirtæki í djúpum vanda,“ segir Rao. Þess má geta að Teva er nú móðurfélag Actavis.

„Á hinn bóginn eru fjölmörg fyrirtæki á alþjóðavísu sem minna fer fyrir en eru mjög öguð, því þau fylgja ekki öllum þeim kynþokkafullu og heillandi tískufyrirbrigðum sem reglulega koma fram heldur geta sigtað út úr öllum hávaðanum sem flestir ráðgjafar og fræðimenn búa til það sem nýtist þeim. Þessi fyrirtæki einblína á aga og má þar nefna vel rekin fyrirtæki eins og Toyota, Subaru og reyndar Amazon.

Lykilatriðið í því að ná árangri í því að skala upp fyrirtæki, eða stækka, eru allir leiðinlegu og óaðlaðandi ferlarnir, eins og ráðningarkerfin, framleiðslu- og dreifingarkerfin, birgðalínurnar og allt í kringum það hvernig þú byggir upp vörulínurnar þínar og kemur vörum og þjónustu til skila til lokaviðskiptavinarins. Markaðssetning er kynþokkafull, sem og að búa til nýja vöru og fjármögnun en það er í þessari grunnstarfsemi, smáatriðunum, sem skilur milli lífs eða dauða fyrirtækja þegar þau skala sig upp.

Það er ekki alltaf auðvelt að finna þann markaðskima, minnstu mögulegu lífvænlegu, ekki vöru, heldur markaðshlutdeild sem skilar þeim vexti. Fullt af fyrirtækjum hafa fyrstu raunhæfu vöruna, en það þarf að finna þann hluta markaðarins sem hægt er að vaxa inn á og það er leit sem fyrirtæki þurfa að fara í gegnum nokkrum sinnum áður en þau finna það sem þau geta grætt á með því að skala sig hratt upp. Þess vegna þurfa öll þessi leiðinlegu kerfi að vera vel mótuð og þá þegar til staðar, þó þau séu ekki heillandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: nýsköpun HR Ísland Babson Jay Rao frumkvöðlafræði MBA nemar