Gengi hlutabréfa hefur fallið hratt beggja vegna Atlantsála eftir að Georg Papandreú, forsætisráðherra Grikklands, kallaði eftir því í gær að kosið verði um nýjustu björgunaráætlun landsins með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðarleiðtogar ESB-ríkjanna náðu saman um aðgerðirnar fyrir rétt tæpri viku og ganga meðal annars út á að helmingur skulda gríska ríkisins verði afskrifaðar.

Flokksfélagar Papandreús segja margir að forsætisráðherrann hafi með ummælum sínum aukið líkurnar á því að Grikkland lendi í greiðsluþroti og verði í kjölfarið sparkað úr hópi evru-ríkjanna. Þeir vilja að hann víki og að blásið verði til þingkosninga fljótlega.

AP-fréttastofan bendir á að fjárfestar hafi sökum þessa dregið úr áhættusækni, losað sig við hlutabréf og leitað í öruggari fjárfestingarkosti.

Fréttastofan hefur eftir Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, að óvíst sé hvaða gagn þjóaðratkvæðagreiðsla eigi að gera. Í svipaðan streng tekur Jean-Claude Junker, fjármálaráðherra Þýskalands, sem undrast upphlaup gríska forsætisráðherrans, hann hafi ekki átt að taka ákvörðunin upp á sitt einsdæmi heldur ráðfæra sig við aðra ráðherra ESB-ríkjanna.

Nú hefur FTSE-vísitalan í Bretlandi fallið um 2,7%, DAX-vísitalan í Þýskalandi hrunið um 4,62% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi fallið um 4,5%. Útlitið er lítið betra í Bandaríkjunum. Dow Jones-vísitalan hefur lækkað um 1,68%, Nasdaq-vísitalan hefur fallið um 2,0% og S&P 500-vísitalan farið niður um 1,99%.