Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði fram tillögu á haustþingi Alþjóðaþingmannasambandsins um að vinna að ályktun undir yfirskriftinni „Lýðræði á stafrænum tímum, ógnir gegn friðhelgi einkalífsins og persónufrelsi“. Var tillagan valin sem aðalmál fastanefndar sambandsins um lýðræði og mannréttindi. Þetta kemur fram á vef Pírata .

Birgitta sat haustþing sambandsins ásamt tveimur öðrum íslenskum þingmönnum, þeim Valgerði Gunnarsdóttur og Ásmundi Einari Daðasyni. Var Birgittu falið að leiða gerð ályktunar um ofangreint efni sem verður borin fram til samþykktar á þingi sambandsins á næsta ári eða á vorþingi árið 2016. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem fulltrúi Íslandsdeildar fær viðlíka verkefni.