*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 11:15

Leiðréttingarsjóður fyrir skuldug heimili

Beita má fjárhæðartakmörkunum við lækkun hæstu lána samkvæmt stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar.

Ritstjórn
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verðandi forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót. Kemur þetta m.a. fram í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem verið er að kynna á blaðamannafundi á Laugarvatni. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Ný ríkisstjórn segist ætla með markvissum aðgerðum að taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. „Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði. Beita má fjárhæðartakmörkum vegna hæstu lána og setja önnur skilyrði til að tryggja jafnræði í framkvæmd og skilvirkni úrræða,“ segir í stefnuyfirlýsingunni.

Þá segir að rétt sé að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum muni myndast samhliða uppgjöri þrotabúa bankanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi.

„Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.“