Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir að það vera mat deildarinnar að skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar veiti ákveðnum hópum meira svigrúm á fasteignamarkaði og ýti þar með undir „aukna veltu á markaði sem síðan mun styðja við frekari verðhækkanir“.

Aðgerðunum var flýtt þannig að í stað þess að lækka skuldir á fjórum árum verður það gert á einu ári. Hún segir að þetta geti haft áhrif á fasteignamarkaðinn til skamms tíma.

„Helst má ætla að áhrifin verði sterkust hjá þeim heimilum sem eiga lítið eigið fé en munu í framhaldi af aðgerðunum öðlast svigrúm til að hreyfa sig á markaðnum. Við reiknum með að áhrifa af þessum aðgerðum gæti einna mest hjá aldurshópnum 25-40 ára. Stóra spurningin er hvort aðrar skuldir þessa hóps hamli enn fasteignakaupum.“