*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 27. mars 2015 08:18

Leiðréttingin kostar Íbúðalánasjóð 900-1.350 milljónir á ári

Íbúðalánasjóður var rekinn með 3,2 milljarða króna hagnaði í fyrra, samanborið við 4,3 milljarða króna tap árið á undan.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Rekstrarniðurstaða samstæðu Íbúðalánasjóðs var jákvæð sem nemur 3.241 milljón króna í fyrra samanborið við 4.353 milljóna króna tap árið á undan. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í árslok nam 18,1 milljarði en nam 14,8 milljörðum í árslok 2013. Eiginfjárhlutfall sjóðsins er 4,5% en var 3,4% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%.

Samtals valda skuldaúrræði ríkisstjórnarinnar Íbúðalánasjóði vaxtatapi að fjárhæð um 900 til 1.350 milljónir króna á ári eða sem nemur um helmingi hreinna vaxtatekna sjóðsins. Kemur þetta fram í skýrslu stjórnar í ársreikningnum.

Áhrif höfuðstólslækkunar íbúðalána á sjóðinn eru af stjórninni talin verða þau að hreinar vaxtatekjur hans dragist saman um 600 til 900 milljónir króna á ári án samsvarandi lækkunar á vaxtagjöldum, enda séu skuldir sjóðsins óuppgreiðanlegar. Endanleg áhrif á vaxtatekjur og heildartjón sjóðsins geti þó breyst eftir mögulegri ávöxtun og verðbólgu hverju sinni.

Lög um ráðstöfun séreignarsparnaðar til greiðslu húsnæðislána munu sömuleiðis hafa áhrif á hreinar vaxtatekjur sjóðsins upp á 300-450 milljónir króna að teknu tilliti til tapaðra uppgreiðslutekna.