Leiðrétting höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána verður kynnt opinberlega af ríkisstjórninni á morgun. Á þriðjudag geta einstakir umsækjendur séð hversu mikið fasteignaskuldir þeirra lækka.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að útkoma leiðréttingarinnar sé í fullu samræmi við væntingar og áætlanir. Hann vildi ekki upplýsa um neinar upphæðir en sagði að útkoman væri jafnvel enn jákvæðari en áætlað var, sérstaklega þegar litið er til dreifingar eftir tekjuhópum.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að niðurstöður leiðréttingarinnar lægju fyrir um miðjan október, en það hefur frestast. Alls bárust 69 þúsund umsóknir um skuldaniðurfellingu og að baki þeim standa um 105 þúsund manni. Ráðgert er að aðgerðin muni kosta 80 milljarða króna og dreifast á fjögurra ára tímabil.