„Vinna við leiðréttinguna er á lokastigi og gengur vel. Það er verið að hnýta síðustu lausu endana. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin verði kynnt opinberlega mánudaginn 10. nóvember og síðan birtist hún umsækjendum daginn eftir, þriðjudaginn 11. nóvember. Fólk á þá að geta séð allar upplýsingar um það hver niðurstaðan er við þeirra umsókn,“ segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í samtali við Fréttablaðið .

Alls bárust 69 þúsund umsóknir um skuldaniðurfellingu og að baki þeim standa um 105 þúsund manns. Upphaflega var ráðgert að niðurstöður leiðréttingarinnar lægju fyrir um miðjan október, en það hefur frestast. Gert er ráð fyrir að aðgerðin muni kosta 80 milljarða króna sem dreifast á fjögurra ára tímabil.