„Fólk sér að það hefur aukið greiðslurými og byrjar að eyða. Ég á von á því að jólaverslunin verði meiri en við höfum séð í langan tíma. Það mun væntanlega þurfa að fara aftur til 2007 til að finna meiri jólaverslun ef fram heldur sem horfir," segir Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, í samtali við Morgunblaðið.

Þar er rætt við nokkra aðila úr atvinnulífinu sem eru sammála um að leiðréttingin muni auka eftirspurn eftir neysluvörum, þar með talið dýrum vörum eins og bifreiðum. Sigurjón Örn Þórðarson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segist þannig hafa heyrt það á kaupmönnum að þeir telji að leiðréttingin muni hafa jákvæð áhrif á viðskipti. Segir hann að horfur séu á aukningu á jólaverslun í ár.