Ný útgáfa af ársreikningi Lindarhvols ehf. var send ársreikningaskrá fyrir síðustu helgi þar sem upplýsingar um eignarhald félagsins höfðu misritast í fyrri útgáfu. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins (FJR) við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um efnið.

Eiginleg starfsemi Lindarhvols rann sitt skeið árið 2018 en þrátt fyrir það hefur félaginu ekki verið slitið. Í svarinu kemur fram að að mati Ríkisendurskoðunar væri æskilegt að bíða með slit á félaginu þar til allar skuldbindingar hefðu verið gerðar upp. Af þeim sökum hefði félaginu enn ekki verið slitið.

Viðskiptablaðið hefur kallað eftir afritum af fundargerðum stjórnar Lindarhvols en FJR hafnaði að veita upplýsingarnar þar sem um 25 klukkustunda vinna við að afmá upplýsingar yrði ráðuneytinu þungbær. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál felldi synjun ráðuneytisins úr gildi í liðinni viku.