Leiðsögumenn telja aðstæður sem þeim er boðið upp á í rútum óviðunandi og krefja rútufyrirtækin um úrbætur. Vinnueftirlitið hvetur fyrirtæki í ferðaþjónustu til að fara yfir vinnuaðstæður í bílum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

„Sumar rútur eru einfaldlega allt of þröngar fyrir leiðsögumennina. Það er ekki gert ráð fyrir því að leiðsögumennirnir hafi lappir, hvað þá að þeir hafi gögn með sér,“ segir Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna í samtali við Fréttablaðið. Örvar bendir á að gjarnan sé vel hugsað um aðstöðu bílstjóra, sem sitja margir á sérstökum loftpúðasætum, en leiðsögumennirnir virðast gleymast.

Í bréfi sem Vinnueftirlitið hefur sent fyrirtækjum í ferðaþjónustu, samtökum atvinnurekenda og stéttarfélögum eru fyrirtæki í ferðaþjónustu hvött til að fara yfir vinnuaðstöðu bílstjóra og leiðsögumanna til að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi.