Jeroen Dijsselbloem, sem leiðir hóp fjármálaráðherra evruríkjanna, segir evruríkin bíða eftir nýjum tillögum frá grískum stjórnvöldum um hvernig megi koma til móts við skilyrði evruríkjanna fyrir frekari lánveitingum. Dijsselbloem lét þessi ummæli falla í aðdraganda samningafunds fjármálaráðherra evruríkjanna sem fer nú fram í Brussel. Fjármálaráðherrarnir eiga í viðræðum í aðdraganda leiðtogafunds Evruríkjanna sem hefst klukkan 7 að staðartíma.

Í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Grikklandi á sunnudag, þar sem kosið var um tiltekin skilyrði sem evrusvæðið setti Grikkjum fyrir áframhaldandi lánveitingum, létu ýmsir leiðtogar evruríkjanna falla þung ummæli þess efnis að Grikkjum yrði í raun hent úr evrusvæðinu ef þeir féllust ekki á skilyrðin. Nú virðist staðan hins vegar vera nokkuð breytt.

Fulltrúar evruhópsins eru komnir aftur að samningaborðinu með Grikkjum og greinir New York Times greinir frá því að viðræður um endurfjármögnun skulda landsins séu í raun á byrjunarreit. Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, og Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hafa báðir lýst því yfir að þeir vilji hlusta á hugmyndir Grikkja um lausn þess mikla vanda sem evrulöndin og Grikkir standa nú frammi fyrir.

Nokkrir leiðtogar hafa þó sett skýrar línur í sandinn þess efnis að skuldaniðurfelling sé ekki í boði fyrir gríska ríkið. Peter Kazimir, fjármálaráðherra Slóvakíu, sagði í aðdraganda samningafundsins í dag að niðurfelling skulda væri „algjörlega ómöguleg“ og Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði slíkt ekki samræmast reglum Evrópusambandsins

Spurður um það hvort Grikkir myndu halda evrunni sagði Schäuble: „Þú þarft að spyrja grísk stjórnvöld.“