Bandaríski leikarinn Michael Douglas leikur Ronald Reagan, forseta Bandaríkjanna, í kvikmynd um leiðtogafundinn í Reykjavík sem áform eru um að taka í haust og sýna að ári. Framleiðendurnir hafa óskað eftir því að fá Höfða til afnota fyrir kvikmyndatökur í heilan mánuð í vor til verksins en þar funduðu þeir Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev, þá aðalritara Kommúnistaflokks Sovétríkjanna, í október árið 1986. Það er leikarinn Cristoph Waltz sem leikur Gorbastsjev.

Fram kemur í umfjöllun fréttastofu 365 miðla að Baltasar Kormákur hafi verið beðinn um að leikstýra myndinni. Ridley Scott verður framleiðandi ásamt Ken Adelman, höfundi bókar um leiðtogafundinn í Reykjavík.

Í umfjöllun fréttastofunnar segir að enn sé margt eins í Höfða og þegar leiðtogarnir funduðu þar. Fundarborð og stólar eru enn á sínum stað en málverkið af Bjarna Benediktssyni var fjarlægt í tíð síðasta borgarstjórnarmeirihluta.