Leiðtogar Frakklands og Þýskalands hafa ekki komið sér saman um að stækka verulega björgunarsjóð Evrópusambandsins sem ætlað er að bjarga skuldsettum aðildarríkjum. Þetta hermir Dow Jones-fréttaveitan og vísar á bug fréttum breska dagblaðsins Guardian þess efnis að niðurstaða sé komin í málið sem kynnt verði um næstu helgi.

Frétt Guardian þessa efnis að lending hafi náðst í málinu skilaði sér í gengishækkun evrunnar og uppsveiflu á hlutabréfamarkaði beggja vegna Atlantsála.

Á fundi tuttugu helstu iðnríkja heims um síðustu helgi var leiðtogum aðildarríkja Evrópusambandsins gefinn viku frestur til að koma sér saman um aðgerðir til að koma skuldsettum evruríkjum til bjargar. Tillögurnar á að leggja fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins um næstu helgi.

Dow Jones-veitan sagði þvert á fréttir Guardian að ráðamenn efnahagsbandalagsins hafi ekki komið sér saman um aðgerðir og karpi enn um stærð björgunarsjóðsins.