Leiðtogar Evrópusambandsins hafa nú samþykkt að sérstakur neyðarsjóður á vegum sambandsins megi lána bönkum milliliðalaust svo það hafi ekki áhrif á ríkisfjármál þeirra landa sem bankarnir eru í. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters í dag.

Þetta er töluverður léttir fyrir leiðtoga Spánar og Ítalíu sem barist hafa fyrir þessum breytingum. Angela Merkel þýskalandskanslari hefur hins vegar lagst gegn þessu.

Eftir 13 klukkustunda umræður var einnig samþykkt að koma á fót sameiginlegu eftirliti með bönkum á evrusvæðinu. Þá samþykkti leiðtogafundurinn að verja 120 milljörðum evra til að auka vöxt og fjölga störfum innan sambandsins.