Leiðtogar átta helstu efnahagsvelda heims vilja að gríska ríkið verði áfram hluti af evrusvæðinu. Í almennri yfirlýsingu, sem birt var síðdegis í dag er því heitið að vinna að auknum hagvexti og efnahagsumbótum í heiminum. Leiðtogar G-8 ríkjanna svokölluðu hvetja til lausnar á skuldavanda evruríkjanna.

Leiðtogarnir viðurkenndu þó að ekki væri hægt að nota sömu áætlunina fyrir öll ríki. Sterkt og samheldið evrusvæði væri hins vegar mikilvægt til að tryggja alþjóðlegan stöðugleika. Þeir sögðu að vilji væri til þess að Grikkir væru áfram hluti af evrusvæðinu svo lengi sem þeir virtu skuldbindingar sínar.

Ekki eru þó allir jafn bjartsýnir á að það takist. BBC hefur eftir sérfræðingum að töluverðar líkur séu á því að Grikkir yfirgefi evrusvæðið, einkum ef úrslit kosninga í næsta mánuði tryggja þeim flokkum meirihluta sem andvígir eru aðhaldsaðgerðum í ríkisrekstri og alþjóðlegum lánum.