„Þetta er flott niðurstaða, ekki aðeins fyrir mig heldur aðra myndlistamenn líka,“ segir Leifur Breiðfjörð sem hafði betur gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. Mál Leifs snérist um tollflokkun á hurðinni við aðalinngang Hallgrímskirkju sem hann steypti í brons í Þýskalandi og flutti sjálfur inn fyrir fjórum árum. Hurðirnar eru tvær og engin smásmíði; 800 kíló hvor og þurfti krana til að koma þeim fyrir. Tollstjóri flokkaði hurðirnar með smíðavörur og lagði á þær gjöld í samræmi við það. Þessu mótmælti Leifur sem sagði verkið skúlptúr sem væri hægt að ganga í gegnum og voru hurðirnar á þeim forsendum fluttar inn til landsins.

Dómari var sammála Leifi enda hurðirnar mikil listasmíð og var íslenska ríkið dæmt til að endurgreiða honum tæplega 7,5 milljóna króna virðisaukaskatt að viðbættu álagi og vöxtum.

Málið rataði í dómssal fyrir fjórum árum eða um svipað leyti og kirkjugestir gátu gengið um þær. Leifur undrast reyndar að málið hafi ratað í dómssal. „Þetta hefði aldrei átt að fara svona langt,“ segir hann.

Leifur segist mjög ánægður með niðurstöðuna en telur of snemmt að segja til um hvort hún geti reynst prófsteinn. Hvað sem því líður hefur hann sent kollegum sínum í Sambandi íslenskra myndlistarmanna (SÍM) afrit af dóminum.