Morgunblaðið greindi frá því í morgun að Leifur Sveinsson lögfræðingur hefði selt hlut sinn í Árvakri hf., útgáfufélagi Morgunblaðsins, til félags í jafnri eigu Straums-Burðaráss hf., Útgáfufélagsins Valtýs hf. og Forsíðu ehf. Endanlega var gengið frá þessum kaupum í fyrradag.

Fjölskylda Leifs Sveinssonar hefur átt eignaraðild að Árvakri hf. frá árinu 1940, er faðir hans, Sveinn M. Sveinsson, tók sæti í stjórn útgáfufélagsins. Hann átti þar sæti til dauðadags 1951. Leifur Sveinsson tók sæti í stjórn Árvakurs hf. á árinu 1969, er bróðir hans, Haraldur, hafði verið ráðinn framkvæmdastjóri Árvakurs hf. Leifur hefur setið ýmist í aðalstjórn eða varastjórn félagsins í 35 ár. Stjórnarsetu Leifs Sveinssonar lýkur á aðalfundi Árvakurs hf. á árinu 2007 að því er kemur fram í frétt Morgunblaðsins.

Þar kemur einnig fram að félag í eigu Straums-Burðaráss hf. hefur átt hlut í Árvakri hf. í nokkur misseri. Útgáfufélagið Valtýr hf. er eignarhaldsfélag afkomenda Valtýs Stefánssonar, ritstjóra Morgunblaðsins í nær fjóra áratugi og Forsíða ehf. er eignarhaldsfélag, sem að meirihluta til er í eigu Ólafs Jóhanns Ólafssonar rithöfundar.