*

mánudagur, 26. júlí 2021
Innlent 10. janúar 2017 09:48

Leiga á aflaheimildum til 33 ára

Athugað verði að taka upp leigu á aflaheimildum til 33 ára og sveigjanlegra auðlindagjald meðal ákvæða í stjórnarsáttmála.

Ritstjórn
Sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs víða um land
Haraldur Guðjónsson

Stefnt er að því að kynna stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar í dag. Mun ný ríkisstjórn kanna möguleika á breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu að því er fullyrt er í Morgunblaðinu í dag.

Þar er sagt að athugað verði hvort hægt verði að taka upp leigu á aflaheimildum til 33 ára í stað ótímabundins afnotaréttar, til þess að reyna að fá auknar tekjur af veiðigjöldum.

Á móti kemur þá verður reynt að miða meira við afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna á hverjum tíma. Sjálft aflamarkskerfið fær þó að vera í friði að mati fulltrúa á fundi flokksráðs Sjálfstæðisflokksins sem rætt var við í gær.

Opin til túlkunar

„Sjávarútvegsmálin eru opin til túlkunar,“ sagði Björt Ólafsdóttir, þingflokksformaður Bjartrar framtíðar. „Það eru ýmsir möguleikar ræddir sem verða skoðaðir, meðal annars markaðstengd gjald fyrir auðlindina. Það rúmar margt.“

Bæði Björt framtíð og Viðreisn höfðu stefnt að viðamiklum breytingum á kerfi fiskveiðistjórnunar fyrir kosningar meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað halda kerfinu utan við pólitískar sviptingar.

Sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í gærkvöldi að í stjórnarsáttmálanum að opnað væri á endurskoðun á auðlindagjaldi í sjávarútvegi í sáttmálanum.