Æ fleiri Danir leigja nú fasteignir í dýrari kantinum en áður. Fjöldi fasteigna sem geta kallast lúxuseignir og eru í útleigu og kosta 10.000 danskar krónur á mánuði hefur farið úr 1.652 árið 2006 í 9.531 á þessu ári. Þetta jafngildir tæplega 500% aukningu á fimm ára tímabili.

Það var danska fasteignaleigan BoligPortal sem heldur utan um upplýsingar um danska íbúðaleigumarkaðinn sem tók tölurnar saman fyrir danska dagblaðið Politiken.

Í upplýsingunum kemur fram að á að sama tíma og því sem kallast lúxusíbúðamarkaður hafi sprungið út þá hafi eignum á skrá hjá BoligPortal farið úr 24.411 í 78.778. Það jafngildir rúmlega 200% aukningu.

Samkvæmt gögnum BoligPortal hefur eftirspurnin eftir fasteignum í dýrari kantinum aukist mikið upp á síðkastið. Landsmeðaltalið hefur aukist um rúm 400% á fimm árum. Í og við Kaupmannahöfn er eftirspurnin hins vegar langmest. Þar hefur hún næstum tífaldast á fimm árum.

Sérfræðingar um fasteignamarkaðinn segja í samtali við Politiken að á árum áður hafi það verið erlendir aðilar sem hafi leigt dýrustu fasteignirnar. Á síðastliðnum fjórum árum hafi auðugir Danir tekið við.

Dýrasta fasteignin til leigu nú um stundir sem Politiken telur til er 332 fermetra hús í Hellerup. Það er með fimm herbergjum og vínkjallara og kostar 70.000 danskar krónur á mánuði. Það gerir 1,5 milljónir íslenskra króna.