Janúar og febrúar er sá tími sem flest flugsæti eru laus í vélum Iceland Express og í stað þess að hafa þau laus er brugðið á það ráð að selja þau á rýmingarútsölu.

Þetta segir Matthías Imsland í samtali við Viðskiptablaðið en Iceland Express mun frá hádegi í dag selja um 5.000 flugsæti á umræddu tímabili á svokallaðri rýmingarsölu.

„Við finnum auðvitað fyrir efnahagsástandinu og heyrum að fólk leitar eftir ódýrari flugsætum,“ segir Matthías.

Matthías segir að félagið hafi dregið nokkuð úr framboði þessa mánuði en leggur áherslu á að stórt hlutfall kostnaðar hjá félaginu sé breytilegu kostnaður. Þannig sé leiga og eldsneyti um 85% kostnaðarins.

„Við greiðum aðeins fyrir vélina þegar hún er í loftinu,“ segir Matthías.

„Þannig að við erum ekki með mikinn fastakostnað sem gerir okkur auðveldara um vik að bregðast við breyttum aðstæðum.“