Alltof lítið framboð er af leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu eins og þróun leiguverðs sýnir en leiguverð hefur hækkað um 30% á þremur árum. Ein skýringin á litlu framboði er sú sprenging sem orðið hefur á ferðamannamarkaðnum, en hundruð íbúða og herbergja eru í ólöglegri útleigu til ferðamanna.

Þetta eru íbúðir sem ættu, eða öllu heldur gætu, flestar verið á almenna leigumarkaðnum. Eigendur þessara íbúða hafahvorki starfs- og rekstrarleyfi né borga lögbundna skatta og gjöld. Til þess að leigja ferðamönnum þurfa leigusalar að sækja um rekstrarleyfi hjá lögreglu eða sýslumanni og starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirlitinu. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist líta málið grafalvarlegum augum.

„Við höfum ítrekað bent á þennan vanda enda höfum við verulegar áhyggjur af ástandinu,“ segir Helga. Í úttekt sem unnin var fyrirSamtökin árið 2011 kom í ljós að 227 íbúðir, án starfsleyfa, voru til leigu til ferðamanna á höfuðborgarsvæðinu. Helga telur að ástandið sé verra í dag. „Gróft talið teljum við að fjórðungur, jafnvel þriðjungur af gistimarkaðnum fyrir ferðamenn á höfuðborgarsvæðinu séu íbúðir og herbergi þar sem leigusalinn hefur ekki rekstrarleyfi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .