Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við samning er varðar leigu á ljósleiðara sem áður var í umsjá NATO. Í febrúar árið 2010 leigði Varnarmálastofnun Vodafone einn af ljósleiðurunum.

Fram kemur í rökstuðningi ESA að í apríl árið 2008 efndu Ríkiskaup fyrir hönd utanríkisráðuneytisins til úboðs á afnotum af tveimur af þremur ljósleiðurum NATO. Markmið útboðsins voru að draga úr kostnaði ríkisins af rekstri ljósleiðaranna, auka aðgang almennings að bandvídd og auka samkeppni á fjarskiptamarkaði. ESA hóf frumrannsókn á málinu haustið 2010 eftir að kvörtun barst frá samkeppnisaðila. Í nóvember 2012 komst ESA að þeirri niðurstöðu að leigusamningurinn, sem gerður var á grundvelli almenns útboðs, fæli ekki í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Umræddri ákvörðun ESA var síðar skotið til EFTA-dómstólsins sem felldi hana úr gildi í janúar 2014.

ESA hefur nú komist að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að leigusamningurinn við Vodafone kunni að fela í sér ríkisaðstoð. Hefur ESA efasemdir um að útboðsferlið hafi tryggt að markaðsverð sé greitt fyrir leigu ljósleiðarans. Þar sem hver kyns ívilnun af hálfu stjórnvalda kann að hafa áhrif á samkeppni myndi afsláttur af leiguverði, ef einhver var veittur, teljast ríkisaðstoð.

Á vef ESA kemur fram að stofnunin kalli nú eftir athugasemdum og upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum. Jafnframt kallar stofnunin eftir athugasemdum frá þeim aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta.