Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði vísitala leiguverðs um 1,4% í september frá fyrri mánuði, en síðastliðna 3 mánuði hefur hún hækkað um 4,6% og ef horft er til síðustu 12 mánaða hefur hún hækkað um 10,4%.

Hæst í vesturhluta Reykjavíkur og Seltjarnarnesi

Hæst er meðalleiguverðið á fermetra í stúdíóíbúð í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og á Seltjarnarnesi, eða 3272 krónur.

Fyrir tveggja herberga íbúð er verðið einnig hæst þar, eða 2758 krónur, en ódýrast á Norðurlandi, utan Akureyrar (Hvorki eru settar fram tölur fyrir aust- né vestfirði). Ef einungis er horft á höfuðborgarsvæðið þá er fermetraverðið ódýrast í Breiðholti, eða 2064 krónur.

Misódýr svæði eftir stærð

Fyrir þriggja herbergja íbúð er sama svæði dýrast og áður, og þá er fermetraverðið 2312 krónur, en ódýrast er það á höfuðborgarsvæðinu á Kjalarnesi og Mosfellsbæ, eða 1948 krónur.

Fyrir 4-5 herbergja íbúð er enn sama svæði og áður dýrast, fæst þá fermetrinn leigður á 2194 krónur en þá er húsnæðið orðið ódýrast á höfuðborgarsvæðinu í Garðabæ og Hafnarfirði eða á 1553 krónur.

Sýnir breytingar á vegnu meðaltali

Vísitalan sem tekin er saman af þjóðskrá sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, en þá er íbúðarhúsnæðinu skipt í flokka eftir herbergjafjölda og staðsetningu.

Meðalfermetraverð fyrir sex flokka íbúðarhúsnæðis er reiknað og er niðurstaðan vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 12 mánuði.